Ég hef verið svo heppinn að fara víða um stjörnuþokur markaðsfræðinnar á mínum ferli sem textasmiður og markaðssérfræðingur. Sem vörumerkjastjóri og yfirtextasmiður hjá Solid Clouds hannaði ég markaðsherferð fyrir hlutafjárútboð fyrirtækisins, þar sem eftirspurn fór þrefalt fram úr framboði. Þar notaðist ég við blöndu af stafrænum auglýsingum, prenti og almannatengslum. Ég mótaði einnig stafræna markaðsstefnu fyrir fyrsta farsímaleik félagsins auk þess að fara fyrir handritsteymi fyrir leikinn, og undanfarið hef ég látið ljós mitt skína sem textasmiður fyrir CCP. Ég hef því hreyft við hjörtum (eða fjarstýringum) tölvuleikjaspilara um heim allan.
Á ferli mínum hef ég komið nálægt bæði stafrænni og hliðrænni markaðssetningu á öllu frá tölvuleikjum til leiksýninga, tónlist til ferðaþjónustu og öllu á milli Andrómedu og jarðar. Meðal þess sem ég hef afrekað á því sviði má nefna Free Walking Tour Reykjavík, pínulítið ferðaþjónustufyrirtæki sem ég fimmfaldaði að umfangi með blöndu af lífrænum samfélagsmiðlaherferðum og stafrænum auglýsingum. Að auki hef ég selt mína eigin tónlist og netnámskeið með aðstoð stafrænna miðla, ásamt því að koma að vel heppnuðum hópfjármögnunum með aðstoð samfélagsmiðla. Þá hef ég fengist við sviðslistir bæði sem leikari, leikstjóri og tónskáld, og tekið þátt í markaðssetningu á afar vel heppnuðum uppfærslum í áhuga- og atvinnuleikhúsi.